Íslenski boltinn

Eggert Gunnþór: Hlakka til að rífa kjaft á æfingu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Edinborg skrifar

Eggert Gunnþór Jónsson, leikmaður Hearts og íslenska U-21 landsliðsins, var hæstánægður eftir sigur landsliðsins á Skotum í kvöld.

Með sigrinum tryggði Ísland sér sæti í úrslitakeppni EM í Danmörku. Leikurinn var þó erfiður en Skotar mættu mjög sprækir til leiks í kvöld.

„Það vantaði smá grimmd í okkur í kvöld og við vorum á afturfótunum í fyrri hálfleik. Við vorum ekki nógu ákafir. En í seinni hálfleik sýndum við hvað við getum og vorum miklu betri en í þeim fyrri. Þá kom baráttan upp og við spiluðum eins og við vitum að við getum.“

„Tilfinningin er ólýsanleg. Ég er enn að ná mér niður. Að sjá seinna markið frá Gylfa var ótrúlegt. Reyndar var þetta allt ótrúlegt. Við komumst yfir og fengum svo þetta mark á okkur sem var algjört slys. Það er lítið hægt að gera í því.“

Sigurinn var jafnvel enn sætari fyrir Eggert þar sem hann býr í Edinborg þar sem leikurinn fór fram í kvöld.

„Ég las það í blöðunum að ég er hef aðeins tapað hér einu sinni í átta leikjum. Það er því gott að koma hingað.“

„Ég hlakka mikið til að fara á æfingu næst og geta aðeins rifið kjaft. Ég held að ég mæti með íslenska fánann og jafnvel í íslenska búningnum líka,“ sagði hann og hló.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×