Innlent

„Erum öll Helga Björk“

Skrautleg mótmæli Vinir Helgu Bjarkar Magnúsardóttur Grétudóttur mótmæltu með skrautlegum hætti fyrir utan Stjórnarráðið í gær og dreifðu brauði með það fyrir augum að laða að sjófugla.  Fréttablaðið/GVA
Skrautleg mótmæli Vinir Helgu Bjarkar Magnúsardóttur Grétudóttur mótmæltu með skrautlegum hætti fyrir utan Stjórnarráðið í gær og dreifðu brauði með það fyrir augum að laða að sjófugla. Fréttablaðið/GVA

Bágum kjörum og niðurskurði hins opinbera við ellilífeyrisþega og öryrkja síðustu ár var mótmælt fyrir utan Stjórnarráðið í gærmorgun, eða um það leyti sem fyrirtöku í máli gegn níumenningunum svokölluðu var frestað handan við götuna í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Mótmælendur hengdu kröfur sínar og mótmælaplögg á snæri sem bundið var utan um fæturna á styttuna af Hannesi Hafstein og spiluðu ómstrítt á flautur ásamt því að berja á potta, dreifa brauði bæði á grasið framan við Stjórnarráðið og þak hússins með það fyrir augum að laða að máva og aðra sjófugla. Hluti sakborninga í hópi níumenninganna og aðstandendur þeirra tóku þátt í mótmælunum.

Fundur ríkisstjórnarinnar stóð yfir á sama tíma í Stjórnarráðinu.

„Við heitum öll Helga Björk,“ sagði einn mótmælenda sem fór fyrir hópnum. Aðrir kynntu sig með sama nafni, jafnt konur sem karlar. Mótmælin voru stuðningur við Helgu Björk Magnúsdóttur Grétudóttur, sem krafði ríkisstjórnina um aukinn stuðning við sömu hópa fyrir viku. Lögreglumenn fjarlægðu hana af vettvangi að ósk aðstoðarmanns forsætisráðherra. Mótmælunum lauk í kringum hádegisbil án afskipta starfsmanna Stjórnarráðsins. - jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×