Handbolti

Óskar Bjarni: Höfðum alltaf góð tök á leiknum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Óskar Bjarni Óskarsson, annar þjálfari Valsmanna.
Óskar Bjarni Óskarsson, annar þjálfari Valsmanna.
Óskar Bjarni Óskarsson, annar þjálfari Valsmanna, var sáttur með stigin í kvöld og ánægður með leik sinna manna. Valur landaði mikilvægum sigri í botnbaráttunni í kvöld en þeir báru sigur úr býtum gegn Selfyssingum 26-25 í 9.umferð N1-deildar karla en leikurinn fór fram að Hlíðarenda.

„Mér fannst við hafa ákveðin tök á leiknum allan tíman. Varnarleikurinn hjá okkur var virkilega góður í fyrri hálfleik en náðum ekki að halda áfram á sömu braut í þeim síðari".

„Selfyssingar náðu að nýta sér veikleika okkar og komust allt of mikið inn í leikinn í lokin. Sóknarleikur okkar er hlutur sem við verðum að vinna í og bæta okkur töluvert á því sviði," sagði Óskar.

„Flestir leikmannanna áttu mikið inn í leiknum en ég þarf jafnvel að dreifa álaginu meira og leyfa fleiri strákum að spreyta sig. Úrslitin segja kannski ekki alla söguna en mér fannst þessi sigur aldrei í hættu".

Júlíus Jónasson, fyrrverandi þjálfari Vals, sagði starfi sínu lausu í gærkvöldi en það virtist ekki hafa mikil áhrif á liðið.

„Þetta var töluvert áfall fyrir hópinn og leiðinlegt fyrir félagið. Hópurinn er jákvæður en ég get ekki sagt hvernig við eigum eftir að taka á þessu. Við verðum bara að halda áfram að bæta okkur og sjá svo til hvar við endum en við erum áfram í bullandi fallbaráttu,"sagði Óskar Bjarni sáttur eftir sigurinn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×