Viðskipti innlent

Lögmenn ráða hvaða gögn þeir vilja sjá

Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, segir enga hagsmunaárekstra skapast þó að slitastjórnin fái upplýsingar um starfsemi Iceland Express í Bandaríkjunum.
Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, segir enga hagsmunaárekstra skapast þó að slitastjórnin fái upplýsingar um starfsemi Iceland Express í Bandaríkjunum. Fréttablaðið/gva

Formaður slitastjórnar Glitnis hafnar alfarið ásökunum um að slitastjórnin sé að reyna að afla samkeppnisupplýsinga um starfsemi Iceland Express í Bandaríkjunum með kröfugerð í dómsmáli sem slitastjórnin rekur nú í New York í Bandaríkjunum.

„Þetta er mjög langsótt að mínu mati, og ekkert slíkt sem vakir fyrir okkur," segir Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis.

Eins og fram hefur komið í Fréttablaðinu sakar Pálmi Haraldsson, aðaleigandi Iceland Express, slitastjórnina um að reyna með ólögmætum hætti að fá samkeppnisupplýsingar með kröfu um afhendingu gagna í málinu.

Steinunn segir slitastjórnina ekki hlutast til um hvaða gögn sé beðið um, ákvörðun um slíkt sé alfarið í höndum lögmanna slitastjórnarinnar í New York.

Meðal gagna sem farið er fram á að Pálmi afhendi eru öll samskipti Iceland Express við bandaríska loftferðaeftirlitið, samstarfsaðila á Newark-flugvelli, gögn um markaðsstarfsemi í New York og fleira. Í yfirlýsingu Pálma er bent á að Íslandsbanki, arftaki Glitnis, eigi um 47 prósent í Icelandair, keppinauti Iceland Express.

Spurð hvort slitastjórnin muni fá umrædd gögn í hendur, fáist þau afhent, segir Steinunn svo vera, enda höfði slitastjórnin málið. Aðspurð segir hún enga hagsmunaárekstra vegna óska lögmanna slitastjórnarinnar. Hún bendir jafnframt á að slitastjórn Glitnis höfði málið í New York, en skilanefndin sýsli með eignir bankans.- bj














Fleiri fréttir

Sjá meira


×