Ray Allen skoraði 28 stig í 105-89 sigri Boston Celtics á Denver Nuggets en þetta var áttundi sigur Boston-manna í röð. George Karl, þjálfari Denver, þarf því að bíða lengur eftir þúsundasta sigurleiknum sínum en Carmelo Anthony gat ekki spilað með liðinu vegna meiðsla. Kevin Garnett var með 17 stig líkt og Paul Pierce og þá gaf Rajon Rondo 13 stoðsendingar. Ty Lawson skoraði 24 stig fyrir Denver.
LeBron James skoraði 33 stig og Dwyane Wade var með 28 stig þegar Miami Heat vann 111-98 útisigur á Utah Jazz. Miami vann lokaleikhlutann með 14 stigum og tryggði sér því sjötta sigurinn í röð. James var einnig með 9 stoðsendingar og 7 fráköst. Zydrunas Ilgauskas var með 16 stig og 10 fráköst og Chris Bosh skoraði 14 stig. Al Jefferson skoraði 25 stig og tók 11 fráköst fyrir Utah og Deron Williams var með 21 stig og 12 stoðsendingar.
Derek Fisher tryggði Los Angeles Lakers 87-86 sigur á nágrönnum sínum í Los Angeles Clippers með því að skora úr sniðskoti rétt áður en lokaflautið gall. Fisher skoraði bara 6 stig í leiknum en Kobe Bryant var stigahæstur með 24 stig, Shannon Brown skoraði 16 stig og Pau Gasol var með 10 stig og 10 fráköst. Eric Gordon skoraði 24 stig fyrir Clippers og Blake Griffin var með 16 stig og 11 fráköst.

Derrick Rose skoraði 29 stig þegar Chicago Bulls vann 88-83 sigur á Cleveland Cavaliers en Cleveland-liðið tapaði þarna sínum sjötta leik í röð. Luol Deng og Joakim Noah voru báðir með 13 stig í þriðja sigri Chicago í röð en Antawn Jamison skoraði 21 stig fyrir Cavaliers.
Andrew Bogut tryggði Milwaukee Bucks 97-95 sigur á Indiana Pacers um leið og leiktíminn tann út. Ástralski miðherjinn endaði með 17 stig og 11 fráköst en Brandon Jennings var stigahæstur með 22 stig og Ersan Ilyasova var með 21 stig og 10 fráköst. Danny Granger skoraði 26 stig fyrir Indiana.

David West skoraði 25 stig og Chris Paul var með 14 stoðsendingar og 5 stolna bolta þegar New Orleans Hornets vann 93-74 sigur á Detoit Pistons. Marco Belinelli var með 22 stig og Emeka Okafor skoraði 14 stig fyrir New Orleans sem vann "aðeins" sinn þriðja sigur í níu leikjum. Ben Gordon skoraði 16 stig fyrir Detroit.
Tony Parker var með 19 stig og 9 stoðsendingar þegar San Antonio Spurs vann 111-94 sigur á Golden State Warriors en Spurs hefur þar með unnið 18 af 21 leik í vetur sem er besta byrjun félagsins frá upphafi. DeJuan Blair var með 15 stig og 13 fráköst hjá San Antonio og það kom ekki að sök þótt Tim Duncan væri bara með 8 stig á 17 mínútum. Reggie Williams skoraði 31 stig í fimmta tapi Golden State í röð.

Beno Udrih skoraði 23 stig og Jason Thompson var með 22 stig og 14 fráköst þegar Sacramento Kings endaði átta leikja taphrinu sína með 116-91 sigri á Washington Wizards. Nýliðinn John Wall lék ekki með Washington vegna meiðsla en liðið er búið að tapa öllum tólf útileikjum sínum á tímabilinu. Al Thornton var stigahæstur með 20 stig og Gilbert Arenas skoraði 19 stig.
Úrslit allra leikja í NBA-deildinni í nótt:

Cleveland Cavaliers-Chicago Bulls 83-88
New York Knicks-Toronto Raptors 113-110
Milwaukee Bucks-Indiana Pacers 97-95
Minnesota Timberwolves-Oklahoma City Thunder 103-111
New Orleans Hornets-Detroit Pistons 93-74
San Antonio Spurs-Golden State Warriors 111-94
Phoenix Suns-Memphis Grizzlies 98-104 (framlengt)
Utah Jazz-Miami Heat 98-111
Sacramento Kings-Washington Wizards 116-91
Los Angeles Clippers-Los Angeles Lakers 86-87