Lífið

Ætlar að koma Íslandi aftur á kortið

Stefán Sölvi Pétursson Vann keppnina sterkasti maður Íslands á þjóðhátíðardaginn og stefnir langt.
Fréttablaðið/Sunnahlín
Stefán Sölvi Pétursson Vann keppnina sterkasti maður Íslands á þjóðhátíðardaginn og stefnir langt. Fréttablaðið/Sunnahlín

Stefán Sölvi Pétursson vann keppnina sterkasti maður Íslands sem haldin var 17. júní. Hann er ekki óvanur því að vinna titla en þetta er í annað sinn sem Stefán er sterkasti maður Íslands ásamt því að vera þrefaldur Vestfjarðavíkingur.

„Ég er mjög ánægður með titilinn og gott að erfiðið borgar sig á endanum.“ Stefán er strax farinn út aftur til að keppa í Hálandaleikunum í Skotlandi en hann er staðráðinn í að koma Íslandi aftur á kortið í þessum geira og leggur mikinn metnað í æfingarnar. „Það eru ellefu ár síðan Íslendingur vann síðast í sterkasti maður heims og okkar tími er því kominn.“

Stefán setur markmiðið hátt og er Jón Páll hans fyrirmynd.

„Markmiðið er að ná að landa öllum stóru titlunum eins og Jón Páll. Maður hefði örugglega ekki farið út í þetta ef ég hefði ekki sem krakki séð Jón Pál fara á kostum,“ segir Stefán sem byrjaði að æfa 17 ára og æfir alla daga.

„Ég hef alltaf verið mikið fyrir íþróttir en þótti of stór og klunnalegur fyrir fótbolta og handbolta. Svo fann ég mig í að lyfta stórum þungum hlutum og ákvað að einbeita mér að því.“ Stefán vinnur sem öryggisvörður hjá Öryggismiðstöðinni og er í fjarnámi í frumgreinadeild Háskóla Reykjavíkur.

„Þetta tekur mikinn tíma og ég nota allan minn frítíma í að gera sem minnst,“ segir Stefán sem verður á fullu í allt sumar að þeysast heimshornanna á milli til að vekja hróður Íslands í aflraunum.

- áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×