Handbolti

Halldór Jóhann: Mikið sjálfstraust komið í liðið

Stefán Árni Pálsson á Selfossi skrifar

„Þetta  var fínn sigur hjá okkur  en við spiluðum  ekki vel í seinni hálfleiknum,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, leikmaður Fram, eftir sigurinn á Selfossi í kvöld. Framarar unnu öruggan sigur á Selfyssingum ,30-38, í áttundu umferð N1 deild-karla í kvöld. 

„Það var alls ekki markmiðið að gefa svona mikið eftir í síðari hálfleiknum en það vill stundum gerast þegar lið erum komin með svona gott forskot“.

Framarar gjörsamlega keyrðu yfir Selfyssinga í fyrri hálfleiknum og lögðu þá gruninn að sigrinum.

„Við náðum upp góðri vörn strax í byrjun leiks og þá fylgdi fín markvarsla frá Magnúsi í kjölfarið. Það sem einkenndi leik okkar í kvöld var hvað við náðum að vera skynsamir í okkar aðgerðum og það er mikilvægt þegar maður er að spila á svona erfiðum útivelli.

Fyrir einu ári voru Framarar í miklum erfileikum í deildinni og sáttu í neðsta sætinu. Núna er liðið búið að vinna fimm leiki í röð og í bullandi toppbaráttu.

„Munurinn á liðinu í dag og fyrir ári síðan er að við erum með mikið sjálfstraust og erum allir búnir að hreinsa vel til í hausnum frá því í fyrra. Við spiluðum best allra liða í þriðju umferðinni á síðustu leiktíð og  erum að byggja ofan á það,“ sagði Halldór Jóhann, leikmaður Fram, kátur  og þreyttur eftir sigurinn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×