Handbolti

Hlynur: Mikilvægur sigur fyrir okkur í botnbaráttunni

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hlynur Morthens, markvörður Vals.
Hlynur Morthens, markvörður Vals.
„Ég er ánægður en alveg gjörsamlega búinn á því," sagði Hlynur Morthens, markvörður Vals, eftir sigurinn á Selfyssingum í kvöld. Valur vann mikilvægan sigur á Selfyssingum 26-25 í sannkölluðum botnslag. Hlynur átti frábæran leik og varði 21 skot en mörg þeirra voru algjör dauðafæri.

„Þetta var ótrúlega mikilvægur sigur fyrir okkur þar sem við erum í svakalegri baráttu við Selfoss og Aftureldingu. Við verðum bara allir að fórna okkur í leiki eins og við gerðum í kvöld. Sjálfur er ég á annarri löppinni og því er ég mjög svo þreyttur," sagði Hlynur.

„Við vörum skrefinu á undan þeim allan leikinn en svo ná þeir að komast óþægilega inn í leikinn í síðari hálfleiknum og það hefði verið skelfilegt að missa þetta frá okkur, ég hefði grátið fram að jólum. Sem betur fer náðum við að halda þetta út og sýna smá karakter".

„Mér fannst við skynsamari en þeir í öllum okkar aðgerðum. Selfyssingar voru oft að taka ótímabær skot að það skrifast á reynsluleysi þeirra. Við aftur á móti erum með frekar reynslumikið lið sem hélt haus allan leikinn," sagði Hlynur Morthens






Fleiri fréttir

Sjá meira


×