Handbolti

Halldór Jóhann: Nýt þess að spila handbolta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Halldór Jóhann Sigfússon.
Halldór Jóhann Sigfússon.
Halldór Jóhann Sigfússon átti frábæran leik þegar að Fram vann tíu marka stórsigur á HK í N1-deild karla í kvöld.

Halldór skoraði þrjú mörk og fiskaði eitt víti en hann var prímusmótor liðsins bæði í vörn og sókn. Hann hefur verið frábær á leiktíðinni og var maðurinn á bak við sigur Fram í kvöld.

„Þetta var eins og við ætluðum okkur að hafa það - kannski að sigurinn hafi verið helst til of stór og ekki miðað við gang leiksins í seinni hálfleik," sagði Halldór Jóhann en HK minnkaði muninn í eitt mark um miðbik síðari hálfleiksins.

„Það kom smá fát á okkur og bregðumst ekki nógu skynsamlega við því þegar ég er tekinn úr umferð. Svo misstum við Andra Berg út af með rautt spjald og Róbert Aron gat ekki spilað með í seinni hálfleik."

„En þeir strákar sem komu inn af bekknum stóðu sig virkilega vel í kvöld."

Halldór hefur þurft að glíma við meiðsli síðustu ár en hefur verið laus við þau í haust. „Ég hef unnið vel í mínum málum eftir að ég fékk brjósklos fyrir tveimur árum. Ég er meiðslafrír og nýt þess að spila handbolta og þá verður þetta útkoman."

Fram var í miklu basli á þessum árstíma í fyrra og Halldór segir það ólíkt skemmtilegra að vera í toppbaráttunni nú.

„Það er tvennt ólíkt að vera við toppinn en botninn en við tökum bara einn leik fyrir í einu. Við erum hvergi nærri hættir en gerum okkur grein fyrir því að við þurfum að gefa 100 prósent í hvern einasta leik. Við erum ekki betri en það."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×