Viðskipti innlent

Segir skuldsetningu vera viðráðanlega

Finnur Árnason Forstjóri Haga segir skuldsetningu fyrirtækisins vel viðráðanlega. Ekki standi til að afskrifa skuldir.
Finnur Árnason Forstjóri Haga segir skuldsetningu fyrirtækisins vel viðráðanlega. Ekki standi til að afskrifa skuldir.

Arion banki hefur ekki afskrifað neinar skuldir Haga-samstæðunnar né stendur til að gera það, að sögn Finns Árnasonar, forstjóra Haga.

Fréttablaðið greindi frá því í síðustu viku að skuldsetning Haga væri slík að Arion banki gæti ýmist þurft að afskrifa eitthvað af skuldum eða breyta þeim í hlutafé eigi að gera félagið álitlegan kost í augum fjárfesta. Finnur segir það einfaldlega rangt.

Í Fréttablaðinu var stuðst við óformlegt verðmat greiningarfyrirtækisins IFS. Þá var bent á að Hagar eru með þrettán milljarða lán á gjalddaga eftir tvö ár og eiginfjárhlutfallið 10,3 prósent, sem sé mjög lágt.

Finnur segir skuldsetninguna viðráðanlega miðað við afkomu félagsins og umsvif. Lánið sé til sex ára og skiptist í þrjá hluta. Þá sé ljóst að þær skipulagsbreytingar, sem ráðist hafi verið í undanfarið, bæti eiginfjárstöðuna.

„Hagar eru eina fyrirtækið sem var með skráð skuldabréf í Kauphöllinni og stóð við allar skuldbindingar á gjalddaga. Félagið hefur staðið við allar sínar skuldbindingar og ekki verið í vanskilum," segir hann og reiknar með að Arion banki muni innan þriggja vikna greina frá tilhögun við skráningu félagsins á markað.- jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×