Handbolti

Daníel Berg: Með frábært byrjunarlið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Daníel Berg Grétarsson átti frábæran leik í kvöld eins og svo margir í liði HK sem vann Hauka í N1-deild karla í kvöld, 36-34.

„Þetta hefur verið eins hjá okkur í flestum leikjum síðan við töpuðum fyrir Akureyri," sagði Daníel Berg en HK vann sinn fimmta sigur í röð í kvöld eftir að hafa tapað fyrir Akureyri í fyrstu umferðinni.

„Síðan þá höfum við verið að spila mjög góðan sóknarleik og náð mjög góðu forskoti í leikjunum. En við erum að keyra liðið áfram á fáum leikmönnum og það vill oft verða til þess að við missum niður forskotið í síðari hálfleik. Það er þó engin afsökun og í raun algjör óþarfi."

Engu að síður hefur HK að skipa gríðarlega sterku byrjunarliði, ekki síst í sókninni. „Við erum með Ólaf Bjarka [Ragnarsson] sem mér finnst vera jafnvel besti leikmaður deildarinnar. Ég vissi líka ekki að Bjarki Már hornamaður væri svona góður áður en ég kom í HK - hann er hrikalega góður."

„En ég vil ekki sleppa neinum, við erum með frábært byrjunarlið," sagði Daníel Berg sem skoraði níu mörk í kvöld.

„Við ákváðum það eftir fyrsta leikinn að nálgast hvern leik á sama máta enda þurfum við að hafa fyrir hverjum einasta sigri. Þetta er alltaf jafn erfitt. Á meðan við erum að berjast og gefa okkur alla í leikinn þá eigum við alltaf möguleika á sigrinum. En um leið og við höldum að við séum of góðir og byrjum að slaka á þá gerist það sama og gegn Akureyri í fyrsta leiknum - við erum ekkert betri en sá leikur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×