Íslenski boltinn

Stelpurnar í riðli með Dönum og Svíum í Algarve-bikarnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku stelpurnar fagna marki á móti Króatíu í sumar.
Íslensku stelpurnar fagna marki á móti Króatíu í sumar. Mynd/Daníel
Íslenska kvennalandsliðið tekur þátt í Algarve-bikarnum fimmta árið í röð en hann fram fer í Portúgal 2. til 9. mars 2011. Líkt og undanfarin tvö ár þá er íslenska liðið að keppa meðal þeirra bestu á mótinu.

Ísland er í B-riðli að þessu sinni og með Svíum, Kínverjum og Dönum í riðli en í hinum riðlinum eru Japan, Finnland, Bandaríkin og Noregur. Af mótherjum Íslendinga í riðlinum eru Svíar efstir á styrkleikalista FIFA, sitja þar í fjórða sæti. Danir eru í því tíunda og Kínverjar í fjórtánda sæti, tveimur sætum á undan Íslendingum.

Þetta er í fyrsta sinn síðan 2008 að íslenska landsliðið er ekki með bandaríska landsliðinu í riðli. Ísland var með Svíum, Norðmönnum og Bandaríkjamönnum í riðli í ár en var með Bandaríkjunum, Dönum og Norðmönnum í riðli árið á undan.

Sigurvegarar riðlanna leika til úrslita í mótinu. Liðin sem hafna í öðru og þriðja sæti riðlanna leika gegn hvort öðru, annarsvegar um þriðja sætið og hinsvegar um fimmta sætið. Neðstu lið hvors riðils leika svo við efstu liðin úr C riðli um sjöunda og níunda sætið. Ekki hefur verið staðfest hvaða þjóðir munu leika í C riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×