Handbolti

Sturla: Okkur langaði meira í sigurinn

Elvar Geir Magnússon skrifar

„Við erum að ná að binda vörnina saman og þá erum við komnir með stöðuga markvörslu. Með svona vörn og markvörslu erum við illviðráðanlegir," sagði Sturla Ásgeirsson leikmaður Vals eftir tíu marka sigurinn gegn HK.

Valsmenn eru komnir með þrjá sigurleiki í röð.„Við vorum komnir eins langt niður á botninn og við gátum nánast komið. Við töpuðum mörgum leikjum illa en það hefur verið stígandi í þessu jafnt og þétt. Þó við höfum tapað gegn Akureyri og FH hefur verið stígandi," sagði Sturla.

„Mér fannst þessi sigur í dag aldrei vera í hættu. Þeir voru bara kraftlausir og okkur langaði meira í sigurinn í dag. Við náðum honum með tíu marka mun, það er frábært."

„Stemningin hefur alveg verið góð í hópnum en nú eru menn komnir með smá blóð á tennurnar. Það hefur tekið óþarflega langan tíma að slípast saman en ég tel okkur mjög gott lið og við getum miklu betur en við höfum sýnt."

Síðasti leikur Vals fyrir jól er gegn Fram næsta fimmtudag. „Framarar hafa spilað frábærlega í síðustu leikjum og er svakalegur gangur á þeim. Við erum ekkert smeykur og þessir leikir hafa alltaf verið svaka rimmur," sagði Sturla.

Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, telur Fram vera besta lið deildarinnar. „Framararnir eru að mínu mati bestir í dag og ég fer ekkert ofan að því. Þeir eru með mestu breiddina og unnu okkur 40-23 síðast. Við ætlum að hefna fyrir það. Það verður erfitt," sagði Óskar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×