Handbolti

Reynir Þór: Gríðarlegur styrkur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Reynir Þór Reynisson.
Reynir Þór Reynisson. Mynd/Anton
Reynir Þór Reynisson, þjálfari Fram, var vitanlega hæstánægður með sigurinn á HK í kvöld.

Með sigrinum komst Fram upp fyrir HK í N1-deild karla og er nú í öðru sæti deildarinnar.

„Við spiluðum mjög vel framan af leik en svo kom smá hikst á okkar leik í síðari hálfleik," sagði Reynir Þór. „En þá héldum við ró á okkar leik og eftir að við skoruðum 1-2 mörk til viðbótar var aftur komið jafnvægi í leikinn."

„Við keyrðum yfir þá í seinni hálfleik eftir að hafa lent í miklum áföllum. Í fyrsta lagi gat Jóhann Gunnar ekki spilað með vegna meiðsla. Svo misstum við Andra Berg út af með rautt spjald og þeir Róbert Aron og Magnús meiddust báðir."

„En þrátt fyrir öll þessi áföll sýnum við gríðarlegan styrk og persónuleika og kláruðum þennan leik mjög sannfærandi."

„HK-ingar brotnuðu í kvöld og veit ég ekki af hverju það var. En mér fannst við betri allan tímann og að sigurinn hafi verið verðskuldaður."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×