Handbolti

Júlíus: Jafntefli hefði verið sanngjarnast

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Júlíus Jónasson, þjálfari Valsmanna.
Júlíus Jónasson, þjálfari Valsmanna.
Júlíus Jónasson, þjálfari Valsmanna, þurfti að horfa upp á sína menn tapa í sjöunda sinn í átta leikjum þegar liðið tapaði 23-22 fyrir Haukum á Ásvöllum í kvöld. Valsmenn náðu að jafna leikinn átta sekúndum fyrir leikslok en Haukum tókst að skora sigurmarkið áður en lokaflautið gall.

„Það er alltaf mjög svekkjandi að fá mark á sig á síðustu sekúndunni. Við þurfum að hafa mikið fyrir því að koma okkur inn í þetta aftur. Við vorum að spila mjög vel lungan af leiknum og ég hefði viljað fá meira út úr þessum leik," sagði Júlíus.

„Það er talsverður munur á liðinu og við erum að bæta okkar leik. Við erum að stimpla okkur inn í þetta hægt og rólega en viljum að sjálfsögðu gera það hraðar. Við höfum trú á því að svona dæmi fari að lenda okkar megin á endanum," sagði Júlíus.

„Ég held að jafntefli hefði verið sanngjarnast miðað við hvernig þetta spilaðist. Við hendum þessu frá okkur í byrjun seinni hálfleiks. Við erum í góðri stöðu í hálfleik en missum þá frá okkur. Við náum að koma okkur mjög glæsilega inn í þetta aftur og vorum búnir að ná í þetta eina stig ef að þetta hefði ekki farið svona í lokin," sagði Júlíus.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×