Handbolti

Logi Geirs: Markmiðin að koma úr móðunni

Elvar Geir Magnússon í Laugardalshöllinni skrifar
Mynd/Stefán
„Ég er búinn á því, batteríin eru alveg tóm," sagði Logi Geirsson eftir sigurinn nauma gegn Lettlandi í kvöld. „Ég er búinn að vera veikur í viku. Hef verið með einhverja helvítis flensu og á pensilíni. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem maður gerir þetta svo maður er orðinn vanur."

„Gummi var búinn að segja mér að hann ætlaði að keyra mig út í þessum leik. Markmiðin eru smám saman að koma úr móðunni og það er ógeðslega gaman að vera kominn í landsliðið aftur. Ég er búinn að vera að bíða eftir þessu síðan í janúar 2009 þegar ég fór í aðgerðina."

Hann var ánægður með sigurinn torsótta í kvöld. „Við byrjuðum mjög illa og þurftum að elta. Þetta lettneska lið er ekki það besta í heimi en er samt þokkalega sterkt lið. Við eigum að vinna þá stærra en ég persónulega er mjög ánægður með að við náðum að klára þetta. Á tímabili var útlitið dökkt," sagði Logi.

„Við erum með þvílíka seiglu og reynslu og við klárum bara svona leiki. Næst eigum við leik í Austurríki og við eigum harma að hefna gegn þeim frá Evrópumótinu. Við munum fara ótrúlega vel yfir þeirra leik og þeir munu ekki koma okkur á óvart á neinn hátt."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×