Handbolti

Atli: Gott að vera á toppnum í fríinu

Stefán Árni Pálsson skrifar

Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, var nokkuð sáttur með stigið í kvöld en hann hefði viljað þau bæði. Akureyri gerði jafntefli ,23-23, gegn Haukum í 11.umferð N1-deild karla en leikurinn fór fram á Ásvöllum. Bæði lið hefðu getað stolið sigrinum í lokin en jafntefli varð niðurstaðan.

„Ég er gríðarlega ánægður að vera enn á toppnum þegar kemur að fríinu. Strákarnir gerðu sér fulla grein fyrir því að Haukar væru með frábært lið og það yrði ekkert auðvelt að koma hingað,“ sagði Atli.

„Við vorum alltaf vel inn í þessum leik og hefðum á tíma getað náð þriggja marka forystu og þá veit maður aldrei hvort leikurinn hefði þróast öðruvísi“.

„Það sem einkenndi leikinn í kvöld var mikil taugaspenna hjá leikmönnum og bæði liðin vildu greinilega enda á góðum nótum fyrir fríið. Þetta var ekki besti handbolti sem ég hef séð en menn voru að leggja sig mikið fram og ég get ekki farið fram á meira,“ sagði Atli.

Akureyringar voru í miklum vandræðum með  framliggjandi vörn Hauka í kvöld og Birkir Ívar Guðmundsson var gjörsamlega með leikmenn Akureyrar í vasanum.

„Ég hef engar áhyggjur af sóknarleiknum hjá okkur. Við spiluðum fínan sóknarleik á móti Fram í síðustu umferð, en í kvöld var það aðallega Birkir sem við vorum í vandræðum með,“ sagði Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, eftir leikinn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×