Lögreglan í Charlotte í Bandaríkjunum rannsakar nú vopnað rán á heimili NBA-leikmannsins Stephen Jackson en hann spilar með liði Charlotte Bobcats.
Margir fjölmiðlar í Bandaríkjunum greindu frá því í dag að þrír vopnaðir menn hafi ráðist inn á heimili Stephen Jackson en það er 557 fermetra villa í mjög fínu hverfi í borginni.
Þjófarnir tóku meðal annars skammbyssu Jackson, dýrmætt armbandsúr skreytt rúbín-steinum og Louis Vuitton veski auk annarra hluta.
Stephen Jackson var staddur í Texas þar sem hann tók þátt í körfuboltabúðum. Konan hans var hinsvegar heima og flúði inn á baðherbergi þar sem lögreglan fann hana þegar þjófarnir voru löngu farnir. Hún slasaðist ekkert.
Þrír vopnaðir menn rændu heimili NBA-leikmanns
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Fleiri fréttir
