Innlent

Icelandair fellir niður flug til Norðurlandanna

Icelandair hefur fellt niður flug til og frá Osló og Stokkhólmi og tvö flug til og frá Kaupmannahöfn í dag, en þessu flugum hafði áður verið seinkað vegna áhrifa gossins í Eyjafjallajökli.

Flug til/frá Amsterdam og Frankfurt er samkvæmt áætlun, en í nokkurri seinkun, og sömuleiðis flug síðdegis til Boston og New York í Bandaríkjunum.

Um tvö þúsund farþegar eiga bókað flug með Icelandair á þeim flugum sem raskast hafa, staðsettir hér á landi og erlendis. Óljóst er hver þróun gossins verður og hvenær flug verður á ný með eðlilegum hætti. Farþegar eru hvattir til að fylgjast með fréttum, brottfarar- og komutímum á textavarpi og vefsvæðum, og á icelandair.is.

"Við erum að glíma við afleiðingar mjög sérstæðra náttúruhamfara og verðum að haga viðbrögðum okkar við nýjustu fréttir og spár hverju sinni", segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.

"Þessar hamfarir hafa í dag haft áhrif á hundruð þúsunda flugfarþega um allan heim og þar á meðal okkar farþega. Þetta veldur þeim að sjálfsögðu miklum óþægindum, en allir sýna þessu skilning. Þeim sem missa af flugi í dag stendur til boða að fá endurgreitt, eða fresta för og breyta farseðlum sínum. Strandaglópum er eftir atvikum séð fyrir fæði og gistingu.

Núna er öll áhersla lögð á að annast þarfir viðskiptavina og koma flugáætlun sem allra fyrst af stað á ný. Ef flug til Evrópu verður heimilað á morgun stefnum við að því að setja upp aukaflug til þess að koma strandaglópum til og frá landinu sem allra fyrst."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×