Íslenski boltinn

Bjarni: Dramatíkin var með ólíkindum í lokin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar.
Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar.
„Jú, jú," svaraði Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar þegar Valtýr Björn Valtýsson, íþróttafréttamaður Stöðvar 2 Sport spurði hann hvort tapið á móti Víkingi Ólafsvík í kvöld hafi verið áfall. Stjarnan tapaði þá 4-5 í vítakeppni fyrir 2. deildarliðinu.

„Ég vil óska Víkingum til hamingju með þetta. Þetta er frábært lið og spiluðu mjög góðan leik í kvöld. Við lentum undir í leiknum og það var alls ekki það sem við ætluðum," sagði Bjarni en Víkingur komst í 1-0 strax á 10. mínútu.

„Þetta var stórkostlegur bikarleikur og gríðarleg dramatík. Það var líka gríðarlega stór ákvörðun dómara í vítakeppninni," sagði Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunni sem var ósáttur með að Þorvaldur Árnason lét Brynjar Gauti Guðjónsson endurtaka vítaspyrnu sína í vítakeppninni eftir að Bjarni Þórður Halldórsson hafði varið en farið of snemma af stað úr markinu.

„Hinn markvörðurinn hreyfði sig líka þegar hann varði. Dramatíkin lenti þeim megin. Þarna var hann ekki samkvæmur sjálfum sér og á bara ekki til orð í sjálfu sér," sagði Bjarni.

„Við verðum bara að játa okkur sigraða og þótt við höfðum sýnt ákveðna stemmningu með því að koma til baka í þessum leik þá gat þetta endað hvorum megin sem var. Dramatíkin var með ólíkindum í lokin," sagði Bjarni í þessu viðtali við Valtý á Stöð 2 Sport í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×