Handbolti

Ólafur: Við vorum níu mörkum betri en þeir í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Guðmundsson.
Ólafur Guðmundsson. Mynd/Daníel
„Ég viðurkenni það alveg að þetta er frekar ljúft," sagði FH-ingurinn Ólafur Guðmundsson sem átti sannkallaðan stórleik í níu marka sigri FH á Íslandsmeisturum Hauka á Ásvöllum í dag.

„Við bjuggumst við hörkuleik og þetta var þannig í fyrri hálfleik. Þegar við vorum komnir með þægilega forustu í seinni þá vorum við alltaf að hugsa að Haukar hafa alltaf verið góðir að koma til baka því þeir gefast aldrei upp. Það gaf okkur aukaorku í að klára leikinn á fullu sem skilaði sér í þessum níu marka sigri," sagði Ólafur sem fór á kostum á báðum endum vallarins.

„Ég ætla að mæta einbeittur í hvern einasta leik hvort sem við erum að fara spila við Hauka eða eitthvað annað lið. Ég var mjög einbeittur í dag og spilaði bæði góða vörn og góða sókn eins og allt liðið. Við smullum vel saman og það voru allir að hjálpa hverjum öðrum og þegar þetta er þannig hjá okkur þá er ekki spurt að leikslokum," sagði Ólafur.

„Við misstum þetta aðeins í lokin á fyrri hálfleik, þegar þeir komu okkur aðeins úr jafnvægi með því að breyta um vörn. Það á ekki að gerast en það gerðist. Við fínstilltum það í hálfleik og fórum aftur í að gera okkar hluti og þá smalla þetta hjá okkur í vörn og sókn. Þá fórum við fram úr þeim nokkuð sannfærandi," sagði Ólafur en eru FH-ingar svona miklu betri en nágrannarnir úr Haukum.

„Við vorum níu mörkum betri en þeir í dag en ég get ekki sagt meira um það eins og er. Við erum búnir að vinna fyrstu tvo leikina okkar en þetta er langt mót og við eigum eftir að spila við þá aftur í vetur. Þá þurfum við bara að mæta eins einbeittur til leiks og við gerðum í dag," sagði Ólafur að lokum.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×