Handbolti

Kristján Arason: Komum þeim á óvart með þessari vörn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristján Arason, annar þjálfara FH.
Kristján Arason, annar þjálfara FH. Mynd/Pjetur
Kristján Arason, annar þjálfara FH, var kátur eftir níu marka stórsigur á Íslandsmeisturum Hauka í kvöld og það á þeirra eigin heimavelli á Ásvöllum.

„Vörnin og markvarslan var frábær hjá okkur og þá sérstaklega vörnin. Ég held að við höfum komið þeim á óvart með þessa vörn. Við spiluðum fyrsta leikinn í 6:0 vörn," sagði Kristján Arason en FH-liðið spilaði framliggjandi vörn í þessum leik.

„Við vorum búnir að skoða Haukaliðið vel. Þeir eru Íslandsmeistarar og það er alltaf árangursríkt að læra það sem góðu liðin gera og reyna síðan að stoppa það. Það tókst í dag," sagði Kristján.

„Við spiluðum allan leikinn mjög vel en þeir komu inn í leikinn eftir að hafa verið hálfsofandi fyrstu tíu mínúturnar. Við héldum bara áfram uppteknum hætti í vörninni í seinni hálfleiknum og svo gáfust þeir bara upp þegar tíu mínútur voru eftir," sagði Kristján.

„Þeir þurftu að hafa mikið fyrir hverju marki sem þeir skoruðu og það var það sem við vildum," sagði Kristján sem er að sjálfsögðu mjög ánægður með byrjunina á tímabilinu.

„Þetta var gott framhald af fyrsta leiknum sem var mjög góður hjá okkur. Afturelding er að spila mjög fínan handbolta og ég var mjög ánægður með þann leik. Við lögðum það síðan upp að ef við myndum spila eins vel á móti Haukum þá ættum við möguleika að vinna. Ég bjóst samt ekki við þessum stórsigri," sagði Kristján að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×