Körfubolti

Barcelona og Olympiakos mætast í úrslitaleiknum í Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Olympiakos fagna hér sigri í kvöld.
Leikmenn Olympiakos fagna hér sigri í kvöld. Mynd/AP
Spænska liðið Barcelona og gríska liðið Olympiakos tryggðu sér í kvöld sæti í úrslitaleiknum í Meistaradeildinni í körfubolta en úrslitaleikurinn verður í beinni útsendingu á Sporttv á sunnudaginn alveg eins og undanúrslitaleikirnir voru í dag.

Olympiakos vann 83-80 sigur á Partizan Belgrad eftir framlendan leik en Barcelona vann mun öruggari sigur, 64-54, á rússneska liðinu CSKA Moskvu. Úrslitaleikurinn fer fram á sunnudaginn klukkan 19.00 en klukkan 16.00 mætast Partizan og CSKA í leiknum um þriðja sætið.

Linas Kleiza, fyrrum leikmaður Denver Nuggets í NBA-deildinni, var með 19 stig og 11 fráköst fyrir Olympiakos í leiknum og þeir Milos Teodosic og Josh Childress skoruðu 17 stig hvor. Lester Bo McCalebb var með 21 stig fyrir Partizan.

Fran Vazquez var með 11 stig og 6 fráköst í jöfnu liði Barcelona og bakvörðurinn ungi sem var valinn í NBA-deildina síðasta sumar, Ricky Rubio, var með 10 stig og 8 stoðsendingar.

Ramunas Siskauskas skoraði 19 stig fyrir CSKA.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×