Handbolti

Bjarni: Ég vil biðja Rothöggið opinberlega afsökunar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bjarni Aron í harðri baráttu í kvöld. Mynd/Daníel
Bjarni Aron í harðri baráttu í kvöld. Mynd/Daníel
Bjarni Aron Þórðarson var markahæstur hjá Aftureldingu í tapinu á móti FH í kvöld en hann var allt annað en ánægður í leikslok og bað stuðningsmannasveit liðsins afsökunar á frammistöðu liðsins. FH vann nýliðana örugglega með átta mörkum að Varmá, 27-19.

„Við mætum ekki til leiks í kvöld sóknarlega séð. Það þorir enginn aðsækja og við driplum alltof mikið. Þetta var bara sama vandamál og í Valsleiknum. Það þýðir ekkert fyrir okkur litla liðið að koma í svona leik og ætla að vakna eitthvað í seinni hálfleik," sagði Bjarni en Afturelding skoraði bara 4 mörk fyrstu 27 mínúturnar í leiknum.

„Mér finnst við verða mæta af fullum krafti frá byrjun og halda honum út allan leikinn frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Í kvöld vorum við bara að spila eins og aumingjar. Við höfum sýnt það að við getum spilað betur og þá sérstaklega ég. Ég tek það alveg á mig að ég er eins og ræfill í þessum leik," sagði Bjarni.

„Það er mjög sárt að senda Rothöggið [Stuðningsmannasveit Aftureldingar] alltaf heim með tap. Þeir eru búnir að mæta á einn sigurleik í vetur og það er fullt af fólki að koma að styðja okkur. Það vantar ekkert nema bara heilann hjá okkur í lag og meira sjálfstraust í liðið. Við verðum bara að æfa harðar og gera betur," sagði Bjarni harðorður.

„Þetta var ótrúlega slakt hjá okkur og ég vil biðja rothöggið opinberlega afsökunar því þetta er bara skelfilegt," sagði Bjarni að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×