Danska lögreglan hefur fellt niður hraðaksturssekt á hendur lítillar fjölskyldu frá smábænum Ullemölle. Hraðamyndavél tók mynd af Fíat smábíl fjölskyldunnar á 94 kílómetra hraða þar sem hámarkshraðinn var 50 kílómetrar. Ástæðan fyrir hraðakstrinum var sú að fjölskyldunni var að fjölga úr tveimur í þrjá.
Birgit Nilsen var að eignast sitt fyrsta barn og Frede Gammelgård gaf Fíatinum í botn til að ná á fæðingardeildina í tíma. Það tókst þó ekki og Frede lagði bílnum út í vegkant til að taka á móti Dittu litlu. Fyrir einskæra heppni ók sjúkrabíll framhjá rétt í því. Frede tókst að stoppa hann og sjúkraflutningamennirnir brugðust skjótt og vel við. Allt var þetta skjalfest og staðfest og dönsku lögreglunni þótti því rétt að spara litlu fjölskyldunni hraðasektina.