Halldór Ingólfsson segir að slakur sóknarleikur hafi orðið Haukum að falli í leiknum gegn Akureyri í kvöld. Haukar töpuðu sínum fyrsta útileik fyrir félaginu síðan Akureyri var stofnað árið 2006.
"Við erum að spila fína vörn og markvarslan er fín. Við gefumst aðeins upp þarna í lokin en það er sóknin sem varð okkur að falli," sagði Halldór.
"Við sköpuðum okkur ekki nógu góð færi og þegar við fengum góð færi nýttum við þau illa. Sóknin í heild sinni var slök og við vorum hreinlega ekki að spila handbolta."
"Það á að vera veisla fyrir aðra leikmenn þegar Björgvin er tekinn úr umferð en það hafði þveröfug áhrif á liðið. Við höfum æft það margoft og við vitum hvernig við eigum að bregðast við," sagði Halldór.
Liðið hafði aðeins skorað tæp 23 mörk að meðaltali í leikjunum fjórum og segir Halldór að sóknarleikurinn sé helsti höfuðverkur liðsins. "Við verðum að vinna í honum," sagði þjálfarinn niðurlútur.
Halldór: Á að vera veisla þegar Björgvin er tekinn úr umferð

Tengdar fréttir

Umfjöllun: Loks vann Akureyri Hauka
Akureyri vann frækilegan sigur á Haukum í N-1 deild karla í handbolta í kvöld. Sigur Akureyringa var öruggur og sanngjarn en liðið er á toppnum með fullt hús stiga. Lokatölur á Akureyri í kvöld 25-19.