Handbolti

Pálmar: Vítið mitt var það öruggasta sem ég hef séð

Henry Birgir Gunnarsson á Húsavík skrifar
Pálmar býr sig hér undir að taka vítaskotið í dag. Það fór í stöngina og inn. Mynd/640.is
Pálmar býr sig hér undir að taka vítaskotið í dag. Það fór í stöngina og inn. Mynd/640.is

Leikur Völsungs og FH í Eimskipsbikarnum i dag var sérstakur fyrir Pálmar Pétursson, markvörð FH. Hann er uppalinn Húsvíkingur og spilaði með Völsungi síðast er liðið spilaði alvöru leik fyrir tíu árum síðan.

Pálmar fékk afar hlýjar móttökur hjá sveitungum sínum fyrir leikinn en hann gaf vinum sínum á Húsavík engin grið. Varði eins og berserkur þær 30 mínútur sem hann spilaði. Alls 13 skot.

"Þetta var í einu orði sagt frábært. Flott umgjörð hjá Völsungi á leiknum og það náðist að gera mjög skemmtilegan dag úr þessum bikarleik. Það er gaman að fá að leggja sitt af mörkum til þess að byggja upp handboltann hérna heima. Völsungarnir leyndu síðan á sér og skoruðu 23 mörk. Það er meira en ákveðin úrvalsdeildarlið," sagði Pálmar brosmildur en Haukar náðu einmitt ekki að skora svona mikið gegn FH um daginn.

Pálmar varði ekki bara vel því hann skoraði einnig mark í leiknum. Kom inn af bekknum til þess að taka vítakast. Það skot var af dýrari gerðinni og fór í stöngina og inn.

"Það er langt síðan ég hef verið eins stressaður og þegar ég tók vítið. Þetta var samt öruggasta víti sem ég hef séð. Menn verja hann ekki þarna. Það verður erfitt fyrir Stjána (Kristján Arason, þjálfara FH) að taka mig af punktinum eftir þetta," sagði Pálmar léttur sem fyrr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×