Handbolti

Júlíus: Ég hef áhyggjur af öllu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Júlíus Jónasson, þjálfari Vals.
Júlíus Jónasson, þjálfari Vals. Mynd/Stefán
„Ég er bara hálf orðlaus," sagði Júlíus Jónasson, þjálfari Vals, eftir að lið hans hafði verið niðurlægt í Safamýrinni í kvöld. Fram rótburstaði Val 40-23 í þriðju umferð N1-deild karla.

„Spilamennskan var karakterslaus, metnaðarlaus og hreint út sagt skelfileg. Við vorum að spila á móti sterku Framliði en það er alls ekki svona mikill munur á liðunum. Í leiknum í kvöld vorum við sjálfum okkur verstir," sagði Júlíus.

Valsmenn misstu marga gríðarlega mikilvæga leikmenn fyrir tímabilið og eru í raun með alveg nýtt lið í ár.

„Fyrir tímabilið misstum við flesta leikmenn allra liða í deildinni og í raun misstum við líka mikilvægustu leikmennina. Við þurftum að byggja upp alveg nýtt lið og höfum fengið marga leikmenn til okkar. Eitt er að slípa leikmennina saman og annað er að fá menn til berjast og gefast aldrei upp en barátta og vinnusemi er hlutur sem okkur sárvantar."

Leikur Valsmanna var vægast sagt slæmur í kvöld og Júlíus á erfitt verk fyrir höndum.

„Það er nokkuð ljóst að það bíða okkur fullt af verkefnum á næstu dögum ."

Júlíus gat ekki nefnt einn ákveðinn hlut sem hann hafði mest áhyggjur af eftir leikinn í kvöld en hann sagði að lokum „Ég hef áhyggjur af öllu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×