Handbolti

Óskar Bjarni: Leiðinlegt að vera að fara í frí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, í kvöld. Mynd/Anton
Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, í kvöld. Mynd/Anton
Valsmenn hafa unnið alla fjóra leiki sína síðan að Óskar Bjarni Óskarsson og Heimir Ríkarðsson tóku við liðinu. Valsmenn unnu dramatískan 29-28 sigur á Fram í kvöld.

„Þetta var frábært en það var kannski ekki alveg sanngjarnt að vinna því jafntefli hefði verið sanngjarnast miðað við það að við vorum að elta svo mikið. Það var samt frábært að vinna þetta, við erum á frábæru skriði og það er leiðinlegt að fara í frí," sagði Óskar Bjarni kátur í leikslok.

„Það var allt að koma þegar ég kom inn og ég hef sagt það áður. Það var allt að smella meira sóknarlega og Bubbi (Hlynur Morthens) var kominn inn. Þetta er farið að rúlla strákarnir tóku sig vel saman í andlitinu og hafa gert það nokkrum sinnum í vetur því þetta er búið að vera mjög erfitt. Nú er bara að horfa fram á veginn og vera ekkert að kíkja til baka. Við eigum enn tvo menn inni í meiðslum og erum bara bjartsýnir," sagði Óskar Bjarni en hvað hefur breyst?

„Vörnin kom með tilkomu Fannars því þá kom meiri þéttleiki og svo kom extra markvarsla með tilkomu Bubba. Við höfum síðan slípast meira sóknarlega um leið og Ernir kemur meira inn í þetta," sagði Óskar Bjarni og var síðan rokinn í sigurmyndatöku af Valsmönnum sem geta glaðst yfir þessum sigri yfir öll jólin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×