Íslenski boltinn

Freyr: Svekktur að fara ekki áfram en stoltur af liðinu

Ómar Þorgeirsson skrifar
Freyr Alexandersson, þjálfari Vals.
Freyr Alexandersson, þjálfari Vals. Mynd/Valli

„Þetta var bara eltingarleikur fyrir okkur og þá sérstaklega eftir að þær komust yfir. Það var mjög svekkjandi og gerði okkur óneitanlega erfitt fyrir.

Ég er hins vegar mjög ánægður með hugarfarið hjá mínu liði því stelpurnar héldu áfram að berjast og voru enn að hlaupa á fullu þegar voru komnar níutíu og tvær mínútur á klukkuna. Þannig þekki ég þessar stelpur og þannig vill ég hafa þær.

Þær gefast aldrei upp og eru sannir íþróttamenn. Ég er auðvitað mjög svekktur að fara ekki áfram en ég er að sama skapi mjög stoltur af liðinu," sagði Freyr Alexandersson, þjálfari Vals, í leikslok eftir 1-2 tap gegn Torres í seinni leik liðanna í 32-liða úrslitum Meistaradeildar UEFA kvenna. Torres vann einvígið því samanlagt 6-2 en Freyr vill ekki meina að sú niðurstaða gefi rétta mynd af styrkleikamuni liðanna, án þess þó að taka neitt af þeim ítölsku.

„Útileikurinn var of stór pakki fyrir okkur en mér finnst samanlögðu úrslitin 6-2 ekki gefa rétta mynd af þessu. Liðin eru að mínu mati jöfn af styrkleika en við fórum illa að ráði okkar í fyrri leiknum og þurfum að sætta okkur við það.

Ég tek samt ekkert af þessu ítalska liði því þær eiga marga góða leikmenn eins og við og þær eiga eftir að fara langt í þessarri keppni. Við náðum annars að halda Patriziu Panico [landsliðskonu Ítalíu] niðri stærstan hluta af leiknum en hún lagði samt upp eitt mark og skoraði annað og það sýnir bara hversu góður leikmaður hún er," sagði Freyr að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×