Viðskipti erlent

Talið að stýrivextir á evrusvæðinu lækki um 0,5 prósentustig

Seðlabanki Evrópu tilkynnir um vaxtaákvörðun sína rétt eftir hádegið í dag. Flestir búast við að vextirnir verði lækkaðir um 0,5 prósentustig.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að vextir á evrusvæðinu standa nú í 2,5% eftir að hafa verið lækkaðir hratt á haustmánuðum. Í október voru vextirnir 4,25% og hafa því lækkað um 1,75 prósentustig á þremur mánuðum en Seðlabanki Evrópu hefur líkt og velflestir aðrir seðlabankar í heiminum verið að lækka vexti sína undanfarna mánuði til að bregðast við vaxandi efnahagsvá í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar.

Samkvæmt skoðanakönnun Reuters gera langflestir greinendur ráð fyrir að vextir verði lækkaðir um 0,50 prósentustig í dag og vextir verði í kjölfarið 2%. Minnihluti greinenda gerir ráð fyrir að vaxtalækkunin nemi 0,25 prósentustigum.

Þá gera flestir greinendur ráð fyrir að vextir haldi áfram að lækka á næstu mánuðum eftir því sem hægir á hagkerfum evrusvæðisins á komandi mánuðum. Búist er við að vextir verði orðnir 1,5% um mitt ár.

Verðbólga hefur minnkað hratt á evrusvvæðinu og er komin undir 2% markmið seðlabanka Evrópu. Reiknað er með að hún haldi áfram að lækka og jafnvel talin hætta á verðhjöðnun á næstu mánuðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×