Íslenski boltinn

Frítt á toppleik Stjörnunnar og Vals í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það verður örugglega hart barist á gervigrasinu í kvöld.
Það verður örugglega hart barist á gervigrasinu í kvöld. Mynd/Stefán

Avant, einn helsti styrktaraðili Stjörnunnar, hefur ákveðið að bjóða frítt á toppleik Stjörnunnar og Vals í Pepsi-deild kvenna í kvöld en heimastúlkur geta komist í toppsæti deildarinnar með sigri á sama tíma og Valskonur geta með sigri farið langt með að tryggja sér fjórða Íslandsmeistaratitilinn í röð.

Það má búast við góðri mætingu og mikilli stemmningu á Stjörnuvellinum í kvöld en leikurinn hefst klukkan 18.00. Það fer fram heil umferð í deildinni á sama tíma þar sem mætast Afturelding/Fjölnir-GRV, Keflavík-Þór/KA, Fylkir-Breiðablik og KR-ÍR.

Það eru 28 dagar síðan þessi lið spiluðu síðast opinberan leik, þar sem deildin fór í frí á með stelpurnar okkar voru á EM í Finnlandi. Leikmenn liðanna eru því búnir að fá að hugsa lengi um þennan mikilvæga leik. Liðin gerðu 2-2 jafntefli í skemmtilegum fyrri deildarleik þeirra á Hlíðarenda og það má búast við baráttu og dramatík á Stjörnuvellinum í kvöld.

Valur er fyrir leikinn með 35 stig á toppnum og tveimur stigum meira en Stjarnan. Stjarnan er með jafnmörg stig og Breiðablik sem sækir Fylkir heim á sama tíma. Stjarnan er með slökustu markatöluna af þessum liðum en Valskonur standa þar mjög vel að vígi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×