Íslenski boltinn

Guðrún Jóna samningsbundin Aftureldingu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik Vals og Aftureldingar/Fjölnis í sumar.
Úr leik Vals og Aftureldingar/Fjölnis í sumar. Mynd/Arnþór

Forráðamenn Aftureldingar segja að Guðrún Jóna Kristjánsdóttir sé samningsbundin félaginu og hafi því ekki leyfi til að semja við KR.

Heimildir Vísis herma að Guðrún Jóna muni taka við KR-ingum á næstunni en hún þjálfaði lið Aftureldingar/Fjölnis síðasta sumar.

Afturelding og Fjölnir ákváðu að slíta samstarfi sínu nú í haust en bæði lið hafa þó hug á að senda lið til þátttöku á Íslandsmótinu á næsta ári.

Afturelding mun þá keppa í úrvalsdeild og Fjölnir í 1. deildinni. Valdimar Leó Friðriksson hjá meistaraflokksráði kvenna hjá Aftureldingu segir því að ekki standi annað til en að Guðrún Jóna verði þjálfari liðsins.

„Hún er samningsbundin Aftureldingu og er það í eitt ár til viðbótar," sagði Valdimar. „Ef önnur félög hafa áhuga á að ráða hana þarf að ræða við okkur fyrst og hefur það ekki verið gert. Ef það hefur hins vegar verið gert í leyfisleysi er ljóst að við þurfum þá að kæra málið til KSÍ."

Á síðasta ári var þáverandi þjálfari Aftureldingar, Gareth O'Sullivan, ráðinn til KR. Hann hætti þar um mitt sumar.




Tengdar fréttir

Guðrún Jóna tekur við KR

Samkvæmt heimildum Vísis verður Guðrún Jóna Kristjánsdóttir næsti þjálfari kvennaliðs KR í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×