Viðskipti erlent

Fjórði hver íbúðaeigandi tæknilega gjaldþrota í Bandaríkjunum

Nær fjórði hver íbúðaeigandi í Bandaríkjunum er tæknilega gjaldþrota, það er hann skuldar meira í fasteign sinni en nemur verðmæti hennar.

Þetta kemur fram í frétt í blaðinu Wall Street Journal. Um er að ræða 10,7 milljónir heimila sem svona er statt fyrir eða um 23% af öllum heimilum í Bandaríkjunum.

Wall Street Journal vitnar til nýrrar könnunnar um stöðuna sem unnin var af First American CoreLogic sem sérhæfir sig í tölfræði á þessu sviði.

Þessi staða ógnar þeirri uppsveiflu sem virðist hafin á fasteignamarkaðinum vestan hafs þar sem að stór hluti fyrrgreindra heimila gæti neyðst til að selja hús/íbúðir sínar og þar með aukið framboðið á markaðinum.

Verð á íbúðum hefur þegar fallið svo mikið í Bandaríkjunum að 5,3 milljónir heimila skulda nú yfir 20% meira í íbúðum sínum en verðmæti þeirra nemur. Mark Fleming aðalhagfræðingur First American CoreLogic segir að þegar skuldir nemi 120% af verðmæti eigna sé veruleg hætta á að þær endi á nauðungaruppboðum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×