Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir meiddist í fyrri hálfleik í tapi íslenska kvennalandsliðsins fyrir Dönum í dag og varð að fara útaf á 36. mínútu. Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari vonar það besta en býst þó við að hún verði frá í einhverjar vikur.
„Ólína snéri sig á ökkla sem er áhyggjuefni fyrir okkur því hún hefur verið frábær og mjög stöðug í stöðu vinstri bakvarðar," segir Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari en Ólína hefur verið í byrjunarliðinu í 19 landsleikjum í röð.
„Við vitum betur eftir tvo til þrjá daga hversu alvarlegt þetta er en það er ekkert ólíklegt að hún sé frá í tvær til fjórar vikur," segir Sigurður Ragnar og bætir við.
„Það er ekki gott fyrir okkar ef að við erum að missa hana út en vonandi fær hún góða meðferð og nær sér góðri fyrir lokakeppnina," sagði Sigurður.
Ólína Guðbjörg spilaði sinn þrítugasta landsleik í dag en hún leikur með Örebro í sænsku úrvalsdeildinni og missir líklega af næsta leik sem er á móti Stattena eftir viku.