Viðskipti erlent

Iceland verslunarkeðjan fær ekki að greiða upp lán sín

Lánadrottnar Iceland verslunarkeðjunnar í Bretlandi hafa hafnað beiðni stjórnenda keðjunnar um að fá að greiða upp hluta af lánum sínum. Iceland, sem er að mestu í eigu Baugs, hefur gengið mun betur en keppinautum sínum í fjármálakreppunni.

Samkvæmt frétt á Reuters um málið vildu stjórnendur Iceland nota 75 milljón pund, eða rúma 14 milljarða kr., af lausafé sínu til að greiða upp lán sín á markaðsvöxtum. En bankarnir, sem eiga lánin, höfnuðu þessu.

Reuters segir að viðræðunum um uppgreiðslu á þessum lánum sé nú lokið þar sem stjórnendur Iceland telja að kostnaðurinn við hana að óbreyttu hefði orðið of mikill.

Uppgreiðsla á lánum við núverandi aðstæður er umdeild þar sem vextir hafa lækkað töluvert í kjölfar fjármálakreppunnar. Lántakendur vilja fá að greiða lánin upp á núverandi markaðsvöxtum en lánveitendur vilja að þau séu gerð upp á pari, það er með þeim vöxtum sem þau voru tekin á.

Það spilar einnig inn í dæmið að lánveitendur vilja að fyrirtæki spari lausafé sitt við núverandi aðstæður.

Hinsvegar varð það að samkomulagi við bankana sem halda á lánum Iceland að keðjunni var leyft að kaupa 51 af verslununum úr þrotabúi Woolworths keðjunnar sem Baugur átti hlut í.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×