Körfubolti

Spánverjar eru sigurstranglegastir á EM í körfu sem hefst í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pau Gasol og Spanverjar vonast eftir sínum fyrsta Evrópumeistaratitli í körfubolta karla.
Pau Gasol og Spanverjar vonast eftir sínum fyrsta Evrópumeistaratitli í körfubolta karla. Mynd/AFP

Evrópukeppni landsliða í körfubolta hefst í Póllandi í dag en sextán bestu körfuboltaþjóðir álfunnar munu þar berjast um Evrópumeistaratitilinn. Þetta verður í 36. skiptið sem keppt erum Evrópumeistaratitilinn í körfubolta en Rússar unnu titilinn fyrir tveimur árum.

Spánverjar hafa aldrei orðið Evrópumeistarar en sex sinnum orðið í öðru sæti þar á meðal í síðustu keppni sem var haldin á þeirra eigin heimavelli. Spænska liðið tapaði þá 60-59 fyrir Rússum í úrslitaleik.

„Við vorum einnig sigurstranglegastir fyrir tveimur árum og við vitum hvernig það fór. Það er ekki auðvelt að vinna titla," sagði Sergio Scariolo, þjálfari spænska liðsins sem tapaði einnig úrslitaleiknum á síðustu Ólympíuleikum.

Spánverjar mæta með NBA-stjörnurnar Pau Gasol, Rudy Fernández og Marc Gasol auk þess sem að Ricky Rubio var valinn í NBA-nýliðavalinu í sumar og þeir Jorge Garbajosa, Juan Carlos Navarro og Raúl López hafa allir spilað í NBA.

Pau Gasol meiddist reyndar á fingri á æfingu og þurfti að fara í smá aðgerð en ætti að vera klár fyrir fyrsta leikinn á móti Serbíu í dag. Spánverjar fengu silfur á EM 2007, 2003, 1999, 1983, 1973 og í fyrstu keppninni 1935.

Evrópumeistarar Rússa eru bæði án leikstjórnandans JR Holden og NBA-leikmannsins Andrei Kirilenko sem var valinn besti leikmaður síðustu EM. þjóðverjar þurfa einnig að sætta sig að leik án síns besta leikmanns því Mark Cuban, eigandi Dallas Mavericks bannaði Dirk Nowitzki að vera með á mótinu.

Dirk Nowitzki hefur verið stigahæsti leikmaður á þremur af síðustu fjórum EM en hann skoraði 28,7 stig í leik 2001, var með 26,1 stig í leik 2005 og skoraði 24,0 stig að meðaltali í síðustu keppni.

Tony Parker er hinsvegar með Frökkum sem eru með flest núverandi NBA-leikmenn í sínu liði því auk Parker eru þeir

Nicolas Batum (Portland), Ian Mahinmi (San Antonio), Boris Diaw (Charlotte) og Ronny Turiaf (Golden State) einnig með franska liðinu á EM. Frakkar enduðu aðeins í áttunda sæti á síðustu EM og vilja ólmir bæta fyrir það.



Leikir dagsins á EM

A-riðill

Makedónía-Grikkland (Kl. 14.30)

Króatía-Ísrael (Kl. 17.15)

B-riðill

Rússland-Lettland (Kl. 14.30)

Frakkland-Þýskaland (Kl. 17.15)

C-riðill

Bretland-Slóvenía (Kl. 16.15)

Serbía-Spánn (Kl. 19.00)

D-riðill

Pólland-Búlgaría (Kl. 16.15)

Tyrkland-Litháen (Kl. 19.15)






Fleiri fréttir

Sjá meira


×