Viðskipti innlent

Bankana vantaði erlenda hluthafa

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson skrifar
Fyrrverandi aðalhagfræðingur Danske Bank vill sjá dreift eignarhald á íslensku bönkunum. Hann hélt erindi um stöðu Íslands og erlenda fjármálamarkaði á árinu á ráðstefnu Alfa Fjárfestingaráðgjafar og Credit Suisse í gær. Markaðurinn/Vilhelm
Fyrrverandi aðalhagfræðingur Danske Bank vill sjá dreift eignarhald á íslensku bönkunum. Hann hélt erindi um stöðu Íslands og erlenda fjármálamarkaði á árinu á ráðstefnu Alfa Fjárfestingaráðgjafar og Credit Suisse í gær. Markaðurinn/Vilhelm

„Ég er þess fullviss að hefðu stórir erlendir bankar verið á meðal ráðandi hluthafa í íslensku bönkunum þá hefði fall þeirra ekki haft eins víðtæk og sársaukafull áhrif og raunin varð. Þeim [bönkunum] hefði aldrei verið leyft að vaxa jafn hratt með þeim hætti sem þeir gerðu. Erlendir hluthafar hefðu passað upp á það," segir Carsten Valgreen, meðeigandi ráðgjafafyrirtækisins Benderly Economics.

Valgreen varð þekktur hér á landi sem aðalhagfræðingur Danke Bank þegar hann, ásamt öðrum, dró upp afar dökka mynd af íslensku uppsveiflunni í skýrslu bankans á vordögum 2006 og leiddi líkur að óhjákvæmilegri niðursveiflu. Fyrir vikið hlaut hann harða gagnrýni.

„Við hefðum mátt gera sumt betur í skýrslunni," segir Valgreen en bendir á að í meginatriðum hafi efni hennar snúist um gríðarlega skuldsetningu bankanna í erlendri mynt og hættuna sem af því stafaði. „Þá var þegar ljóst að bönkunum hafði verið leyft að vaxa umfram getu Seðlabankans, sem gat ekki reynst lánveitandi til þrautavara," segir hann. Breskir, bandarískir og evrópskir bankar hafi mátt vaxa eins og þeir gátu en seðlabankar þar hefðu einungis sett prentvélarnar í gang og prentað þá peninga sem upp á vantaði. Slíku var ekki að skipta hér enda þurftu bankarnir á erlendri mynt að halda. „Það er með eindæmum hvernig allt kerfið brást," segir hann og hristir höfuðið.

Hann bendir á að þótt miklir erfiðleikar steðji að víða um heim gegni öðru máli um Ísland enda hafi fáir horft upp á gjaldmiðil sinn verða næsta verðlausan.

Valgreen segir mikilvægt að byggja upp trúverðugleika hratt á ný. Bæði þurfti að púkka upp á krónuna með öllum tiltækum ráðum til skemmri tíma enda ljóst að innleiðing evru sé óframkvæmanleg eins og sakir standa. Nauðsynlegt sé að láta hana fljóta eins fljótt og auðið er, annað sé glapræði.

Hann segir raunar margt líkt með Íslandi og Lettlandi að einu atriði undanskildu. „Bankar í Lettlandi eru flestir útibú norrænna banka, svo sem þeirra sænsku, Enskilda og Swedbank. Þegar illa árar eða útibúin fara á hausinn þá finna sænsku bankarnir fyrir því, ekki þeir í Lettlandi. Þar munar um," segir Valgreen og bætir við að afleiðingar bankahrunsins hér hefðu verið mun vægari hefðu stórir erlendir bankar verið í hluthafahópi íslensku bankanna.

Hefðu þeir á annað borð leyft mikinn vöxt og gríðarlega skuldsetningu bankanna hefði fallið lent að hluta á erlendu hluthöfunum. Á móti hefðu þeir getað virkað sem stuðpúðar þegar á þurfti að halda og opnað bönkunum aðgang að erlendu fjármagni. Stórir norrænir og þýskir bankar hefðu verið álitlegur kostur, að mati Valgreens. „Það má hafa þetta í huga þegar bankarnir verða einkavæddir aftur," segir Carsten Valgreen.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×