Íslenski boltinn

KR-ingar í vandræðum í Grikklandi - Larissa að vinna 1-0 í hálfleik

Ómar Þorgeirsson skrifar
Frá fyrri leik KR og Larissa á KR-vellinum.
Frá fyrri leik KR og Larissa á KR-vellinum. Mynd/Valli

KR-ingar eiga í vök að verjast í seinni leik sínum gegn Larissa í Evrópudeildinni á Grikklandi og staðan er 1-0 heimamönnum í vil í hálfleik. KR-ingar unnu fyrri leikinn sem kunnugt er 2-0 á KR-vellinum og eru því enn með yfirhöndina í einvíginu en allur seinni hálfleikurinn er eftir.

KR-ingar gáfu heimamönnum reyndar ekkert eftir framan af leik og voru sterkari aðilinn ef eitthvað er. Líkt og í fyrri leiknum á KR-velli voru KR-ingar mjög fastir fyrir og skipulagðir varnarlega og Grikkirnir virkuðu pirraðir við mótlætið.

Leikmenn Larissa tóku hins vegar forystu eftir tæplega hálftíma leik og þar var Athanasios Tsigkas að verki. Tsigkas fékk sendingu frá vinstri og afgreiddi boltann í netið frá vítateigslínunni, óverjandi fyrir Stefán Loga Magnússon í marki KR.

KR-ingar fengu nokkur hálffæri til þess að skora en það var ekki sama flæði í leik þeirra og í fyrri leiknum og Grikkirnir virkuðu mun grimmari þegar líða tók á fyrri hálfleikinn.

Staðan var samt enn 1-0 fyrir Larissa þegar flautað var til hálfleiks og ljóst að spennandi seinni hálfleikur er framundan þar sem KR-ingar verða að berjast áfram fyrir lífi sínu í Evrópudeildinni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×