Nýfætt stúlkubarn sem fjórtán ára gömul móðir bar út í Argentínu fannst heilt á húfi í hundakofa á bóndabæ í grennd við borgina La Plata.
Tík með hvolpa á spena hafði borið hana inn í kofann og hélt á henni hita ásamt hvolpum sínum. Bóndinn á bænum varð var við barnið.
Hann hringdi til lögreglunnar sem flutti það í skyndi á sjúkrahús. Ekkert amaði að þeirri litlu.
Lögreglan er þegar búin að hafa upp á hinni ungu móður. Hún hafði fætt barnið utan dyra og skilið það eftir.