Erlent

Heimilislausir reknir úr tjaldbúðum

Óli Tynes skrifar
Heimilisleysingjarnir undirbúa flutning.
Heimilisleysingjarnir undirbúa flutning.

Yfirvöld í bænum Ontario í Kaliforníu í Bandaríkjunum byrjuðu í gær að taka niður 400 manna tjaldborg heimilislausra, sem höfðu hreiðrað um sig í grennd við flugvöll bæjarins.

Upphafið var það að á síðasta ári reyndi bæjarstjórnin að leysa vanda heimilislausra með því að reisa þarna tjöld.

Það tókst mun betur en til stóð. Fregnir af tjaldborginni bárust út og þangað flykktist heimilislaust fólk úr öllum áttum.

Um helgina var bæjarstjórninni nóg boðið. Hún var til í að sjá um sína heimilisleysingja, en hafði engan áhuga á að taka við utanaðkomandi.

Því var ákveðið að taka tjaldborgina niður og reka þaðan þá sem ekki gætu sýnt framá að þeir væru sannir Ontæringar.

Hvað nú tekur við fyrir hina heimilislausu er ekki alveg á hreinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×