Erlent

Fjórir látnir eftir að krani féll á hús í New York

Óli Tynes skrifar

Miðað við tjónið sem kraninn olli er eiginlega furðulegt að ekki skyldu fleiri en fjórir láta lífið. Björgunarsveitir sem unnu á staðnum í alla nótt hafa enda ekki útilokað að fleiri finnist látnir.

Þegar kraninn hrundi brotnaði hann í marga hluta. Hann flatti meðal annars út fjögurra hæða íbúðarhús og braut niður hluta af fimm öðrum byggingum. Bílar voru einnig flattir út og risastór rykský lagðíst yfir austurhluta Manhattan.

Kraninn stóð við fimmtugasta og fyrsta stræti stræti skammt frá gatnamótum annarrar Breiðgötu. Michael Bloomberg, borgarstjóri í New York sagði að þetta væri versta byggingaslys í sögu borgarinnar.

Fólk sem bjó í grendinni varð skelfingu lostið við lætin. Hús þess nötruðu og þegar það leit út um glugga sá það ekkert fyrir rykskýinu sem lá þarna yfir. Margir töldu víst að framið hefði verið eitthvað skelfilegt hryðjuverk.

Þeir gátu hinsvegar ekkert flúið þar sem þeir sáu ekki handa sinna skil fyrir ryki, og þorðu ekki að fara út. Það er hinsvegar talið alveg ljóst að kraninn hafi hrunið fyrir slysni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×