Erlent

Abbas hættur friðarviðræðum við Ísraela

Óli Tynes skrifar
Ísraelar hafa beitt bæði orrustuvélum og fótgönguliði á Gaza ströndinni.
Ísraelar hafa beitt bæði orrustuvélum og fótgönguliði á Gaza ströndinni.

Um eitthundrað manns hafa fallið í átökum Ísraela og Palestínumanna undanfarna daga. Þetta eru hörðustu átök sem hafa orðið lengi og þau stefna friðarferlinu í verulega hættu. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hélt neyðarfund um málið í dag, að beiðni Palestínumanna og stuðningsríkja þeirra.

Að honum loknum fordæmdi Ban Ki-moon framkvæmdastjóri samtakanna eldflaugaárásir Palestínumanna á Ísrael. Hann sagði að þær væru tilgangslaus hryðjuverk sem stefndu ísraelskum almenningi í hættu og færðu palestinskum almenningi aðeins þjáningar.

Framkvæmdastjórinn sagði einnig að Ísraelar hefðu vissulega rétt til þess að verja sig. Hinsvegar væru viðbrögð þeirra ekki í neinu samræmi við tilefnið. Mikið mannfall hefði orðið meðal óbreyttra borgara og þar á meðal hefðu börn látið lífið.

Ísraelar yrðu að fara að alþjóðalögum sem banna slíkar hóprefsingar.

Ísraelar segja hinsvegar að þeir muni herða aðgerðir sínar á Gaza ef eitthvað verði.

Ehud Barak, varnarmálaráðherra Ísraels sagði að hann hefði sent Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna skýr skilaboð. Ísraelar gætu einfaldlega ekki sætt sit við að sitja aðgerðarlausir undir eldflaugahríð frá Gaza ströndinni.

Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna tilkynnti svo rétt fyrir hádegi að hann væri hættur friðarviðræðum við Ísraela vegna árása þeirra á Gaza.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×