Erlent

Kornabarn skilið eftir í leigubíl

Óli Tynes skrifar

Klever Sailema átti einskis ills von þegar hann tók mann með kornabarn upp í leigubílinn sinn. Maðurinn virtist reyndar dálítið órólegur og sagði leigubílstjóranum að móðir barnsins hefði yfirgefið þau fyrir fjórum dögum.

Eftir að hafa ekið nokkurn spöl bað maðurinn hann um að stoppa bílinn því hann þyrfti að hringja úr almenningssíma. Hann stökk svo út úr bílnum og hvarf. Eftir að hafa beðið nokkra stund gerði Sailema sér grein fyrir að farþeginn kæmi ekki aftur.

Auk barnsins skildi maðurinn eftir bleyjupakka, barnamat og föt. Sailema er sjálfur barnlaus og vissi ekkert hvað hann átti að gera.

Hann fór því með barnið á næstu slökkvistöð. Og kom þar ekki að tómum kofanum. Slökkviliððsmennirnir skiptu um bleyju og léku við litlu telpuna þartil fulltrúar borgarinnar komu og fluttu hana á sjúkrahús til rannsóknar.

Sú stutta reyndist við bestu heilsu, og lögreglan lýsir nú eftir einhverjum ættingja sem gæti borið kennsl á hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×