Lífið

Stefnir í stærstu Food og Fun hátíð frá upphafi

Landbúnaðar- og iðnaðarráðherra nutu kræsinga og félagsskaparins á blaðamannafundi hátíðarinnar í dag.
Landbúnaðar- og iðnaðarráðherra nutu kræsinga og félagsskaparins á blaðamannafundi hátíðarinnar í dag. MYND/Sigurjón
Stærsta Food and Fun hátíðin frá upphafi fer af stað í kvöld og er þegar orðið margbókað á hvert boð á fjölmörgum þeirra fimmtán staða sem taka þátt í hátíðinni.

„Ég taldi á fingrum annarrar handar að það væru komnir yfir sextíu kokkar til landsins sem sem taka þátt með einum og öðrum hætti," segir Siggi Hall, forsvarsmaður hátíðarinnar, en auk kokkanna eru fulltrúar 70 erlendra fjölmiðla í Reykjavík til að fjalla um hátíðina.

Að þessu sinni verður sérstök áhersla lögð á Nýja norræna matargerðarlist. Hún er samstarfsverkefni Norðurlandaráðs sem leggur áherslu á að tengja fyrsta flokks matargerðarlist við hrein og fersk hágæðahráefni norðurslóða, sjálfbærni, heilsu, gildismat og menningu Norðurlanda.

„Það þýðir ekki gamli hákarlinn og hrútspungarnir, eða sænskar kjötbollur," segir Siggi, og útskýrir að ætlunin sé að færa matargerðina til nútímans, og skapa henni aukinn veg erlendis. „Þessi tegund matreiðslu er þegar mjög vinsæl en við erum að gefa henni „identitet" segir Siggi, og bendir á að allir viti strax hvað við sé átt með Miðjarðarhafsmat, frönskum eða japönskum.

Fjögurra rétta Food and Fun matseðill verður í boði á öllum stöðunum sem taka þátt, og auk þess verður sérstakur nýnorrænn matseðill á Vox. Það er svo sannarlegi ekki kjötbollur í brúnni eða hrútspungar í boði þar, en meðal þess sem kokkarnir þar galdra fram er humar vafinn í greni og ís með birki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×