Erlent

Mörg hundruð tilraunir til að myrða Castro

Óli Tynes skrifar
Hehe.
Hehe.

Fyrrverandi yfirmaður kúbversku leyniþjónustunnar segir að leyniþjónustunni sé kunnugt um yfir 600 tilraunir og samsæri um að myrða Fidel Castro.

Margar þessarar tilraunir má rekja til bandarísku leyniþjónustunnar CIA að sögn Fabians Escalante, sem um langt skeið hafði það hlutverk að verja leiðtogann fyrir óvinum hans.

Margar þessar tilraunir hefðu sómt sér í góðum njósnareyfara. Til dæmis reyndi CIA að koma til hans eitruðum vindlum. Eiturgashylki var komið fyrir í útvarpsstöð sem átti von á Castro í viðtal. Og margoft átti að sprengja hann í loft upp.

Escalante segir að CIA hafi átt beint hlut að máli í mörgum tilræðum á fyrri hluta sjötta áratugar síðustu aldar. Eftir það voru aðallega að verki kúbverskir útlagar sem CIA hafði þjálfað fljótlega eftir að Castro komst til valda árið 1959.

Það er svo athyglisvert að skoða morð og morðtilraunir í sögulegu samhengi. Margar tilraunir voru gerðar til þess að myrða Jósef Stalín. Margar tilraunir voru gerðar til þess að myrða Adolf Hitler, Idi Amin, Saddam Hussein og Fidel Castro. Engin tilraunin tókst.

Þar á móti höfum við svo John Kennedy, Robert Kennedy og Martin Luther King. Það hallar óneitanlega á góðu gæjana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×