Erlent

Al Kæda að niðurlotum komin í Írak

Óli Tynes skrifar
Kveðjumynd af konu sem framdi sjálfsmorðsárás.
Kveðjumynd af konu sem framdi sjálfsmorðsárás.

Í tveimur skýrslum frá foringjum Al Kæda í Írak er því lýst að samtökin séu að niðurlotum komin og liðsmenn óviljugir til að berjast. Þeim hafi enda fækkað stórlega eftir að Sunni múslimar gengu í stórum hópum til liðs við Bandaríkjamenn.

Annar foringinn segir að liðsmönnum sínum hafi fækkað úr 600 í innan við tuttugu.

Auk þess að ganga til liðs við Bandaríkjamenn hafa um 80 þúsund súnníar gengið í svokölluð Nágrannasamtök sem hafa hjálpað til við að hrekja liðsmenn Al Kæda frá stórum svæðum vestur- og norðurhluta Íraks, meðal annars frá Bagdad.

Skortur á liðsmönnum kann að vera ein skýringin á því að Al Kæda liðar eru nú að þjálfa börn undir ellefu ára aldri í hermennsku.

Myndbönd af því voru birt í síðustu viku. Einnig hafa þeir verið sakaðir um að nota þroskaheft fólk til þess að bera fyrirsig sjálfsmorðssprengjur.

Bandarískir leyniþjónustumenn segja að þessar skýrslur sýni aðeins að Al Kæda eigi í miklum erfiðleikum á vissum stöðum. Alls ekki sé tímabært að afskrifa samtökin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×