Erlent

Rússneskur fánaberi látinn

Óli Tynes skrifar
Sviðsett mynd. Mihail notaði í raun belti til þess að festa fánann við styttu á þaki þinghússins í Berlín.
Sviðsett mynd. Mihail notaði í raun belti til þess að festa fánann við styttu á þaki þinghússins í Berlín.

Hermaðurinn sem dró rússneska fánann að húni á þinghúsinu í Berlín í síðari heimsstyrjöldinni er látinn, 85 ára að aldri. Mikhail Minin bauð sig fram til hersþjónustu í Rauða hernum árið 1941 eftir að Þjóðverjar réðust inn í landið.

Hann tók þátt í stríðinu til enda. Fyrst í orrustunum í hinni umkringdu Leningrad og svo fór hann með hersveit sinni hina löngu leið til Berlínar í stríðslok. Einræðisherrann Jósef Stalín hafi gefið fyrirmæli um að rússneski fáninn skyldi dreginn að húni á þinghúsinu ekki síðar en 1. maí 1945.

Það þurfti ekki að vera alvöru fáni, enda voru þeir af skornum skammti. Það var nóg að hafa einhverja heimatilbúna rauða dulu, til þess að marka sigurinn. Þann 30. apríl kom Mikhail Minin að þinghúsinu ásamt félögum sínum. Þýskir hermenn sem þar voru ennþá skutu á þá.

Þeim tókst þó að komast upp á þakið, með sinn heimatilbúna fána. Þar notuðu þeir belti sín til þess að festa fánann við styttu.

Það var enginn ljósmyndari á staðnum þegar þetta gerðist. Hin fræga mynd af rússneskum hermanni að festa fánastöng á þaki þinghússins var sviðsett síðar. Og sá hermaður var ekki Mikhail Minin.

Hann fékk engu að síður heiðurinn af því að hafa hengt upp fyrsta flaggið. Hann fékk heiðursmerkið "Hetja Sovétríkjanna," og gegndi herþjónustu í mörg ár í viðbót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×