Erlent

Dauðadæmdum kastað fyrir björg

Óli Tynes skrifar
Yfirleitt eru dauðadæmdir hengdir í Íran.
Yfirleitt eru dauðadæmdir hengdir í Íran.

Hæstiréttur Írans hefur staðfest að tveir dauðadæmdir menn skuli teknir af lífi með því að kasta þeim fyrir björg. Þeir voru dæmdir fyrir að nauðga öðrum karlmönnum.

Aftökur með þessum hætti munu vera sjaldgæfar, en samkynhneigð ein og sér er dauðasök í Íran.

Íransk-norskur mannréttindafrömuður segir í viðtali við Aftenposten að þessi dómur sýni hverskonar stjórnarfar ríki í landinu.

Þetta sé ekki dómur sem hafi verið felldur í einhverjum afskekktum afdal, heldur dómur sem sé staðfestur af hæstarétti Írans.

Yfirleitt er fólk í Íran tekið af lífi með hengingu. Í síðustu viku voru til dæmis þrettán manns hengdir.

Þar á meðal var 27 ára gömul tveggja barna móðir sem var dæmd til dauða fyrir að verða manni sínum að bana eftir að hún kom að honum í rúminu með annarri konu.

Hann gaf þá skýringu á framhjáhaldinu að hún sjálf væri of mikið notuð eftir að hafa alið honum tvö börn. Við það missti hún stjórn á sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×