Erlent

Hvað varð Benazir Bhutto að bana ?

Óli Tynes skrifar

Benazir Bhutto er dáin og grafin, en það eru enn heitar deilur um hvað það í rauninni var sem varð henni að fjörtjóni. Í fyrstu yfirlýsingu frá yfirvöldum var sagt að hún hefði verið skotin í höfuðið.

Því var síðan breytt og sagt að hún hefði dáið af höfuðhöggi sem hún hlaut þegar hún beygði sig eftir að hafa heyrt skothvelli. Hún stóð þá uppi í brynvörðum bíl sínum og veifaði til mannfjöldans út um þaklúguna.

Í síðari yfirlýsingunni sagði að hún hefði beygt sig við skothvellinn og sprengingin sem fylgdi strax á eftir hafi kastað henni af miklu afli á járnhandfang lúgunnar. Við það hafi hún fengið höfuðhögg sem dró hana til dauða.

New York Times hefur nú birt yfirlýsingu frá læknunum sem undirrituðu dánarvottorðið. Þeir segja að yfirlýsingar stjórnvalda séu ekki sannleikanum samkvæmt. Þeir hafi verið beittir þrýstingi til þess að staðfesta hana.

Yfirlæknir á sjúkrahúsinu segir að eina leiðin til þess að komast að hinu sanna sé að grafa Benazir Bhutto upp og kryfja hana. Það neitar eiginmaður hennar hinsvegar að leyfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×